Hjarta konungsins er sem lækir í hendi Drottins,
hann sveigir þá hvert sem honum þóknast.
Maðurinn telur alla hætti sína rétta
en Drottinn vegur hjörtun.
Að ástunda réttlæti og rétt
er Drottni þóknanlegra en sláturfórn.
Drembilát augu og hrokafullt hjarta,
lampi ranglátra er syndin.
Áform hins iðjusama færa arð
en hroðvirkni endar í örbirgð.
Fjársjóðir, fengnir með lygum,
eru sem svipull vindblær og snörur dauðans.
Ráðríki ranglátra feykir þeim burt
því að þeir hafna réttlátri breytni.
Hlykkjótt er leið hins seka
en verk hins hreina eru vammlaus.
Betri er dvöl í horni á húsþaki
en sambúð við þrasgjarna konu.
Hinn rangláti girnist illt,
náungi hans finnur enga miskunn hjá honum.
Sé spottaranum refsað verður hinn fávísi hygginn
og sé vitur maður fræddur vex hann að viti.
Hinn réttláti fylgist með húsi hins rangláta
og steypir óguðlegum í ógæfu.
Sá sem daufheyrist við kveini hins fátæka
mun sjálfur kalla og ekki fá bænheyrslu.
Gjöf á laun sefar reiði
og umbun í leyni ákafa bræði.
Réttlátum manni er gleði að gera það sem rétt er
en illvirkjum er það skelfing.