Þá er Jesús sat á Olíufjallinu gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: „Seg þú okkur, hvenær verður þetta? Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“
Jesús svaraði þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: Ég er Kristur! og marga munu þeir leiða í villu. Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess að skelfast ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
Þá munu menn framselja yður, pína og taka af lífi og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn. Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.