Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig
því að ég er hjálparvana og snauður.
Vernda líf mitt því að ég er þér trúr.
Þú ert Guð minn,
hjálpa þjóni þínum sem treystir þér.
Ver mér náðugur, Drottinn,
því að ég ákalla þig allan daginn.
Lát þjón þinn fagna
því að ég hef sál mína til þín.
Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa,
gæskuríkur öllum sem ákalla þig.
Hlýð, Drottinn, á bæn mína
og gef gaum að grátbeiðni minni.
Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig
því að þú bænheyrir mig.
Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn,
og ekkert er sem verk þín.
Allar þjóðir, sem þú hefur skapað,
munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn,
og tigna nafn þitt
því að þú ert mikill og gerir undraverk,
þú einn ert Guð.
Vísa mér veg þinn, Drottinn,
að ég gangi í sannleika þínum,
gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.