Á fyrsta stjórnarári Belsassars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum í rekkju sinni og sá sýnir. Hann skráði síðan drauminn og í upphafi frásagnarinnar greinir Daníel svo frá:
Í nætursýn minni sá ég hvernig himinvindarnir fjórir ýfðu hafið mikla. Og fjögur stór dýr komu upp úr hafinu, hvert öðru ólíkt. Fyrsta dýrið var eins og ljón en hafði arnarvængi. Meðan ég horfði á það tættust vængir þess af því, því var lyft upp og það reist á fætur eins og maður væri og því var fengið mannshjarta.
Og annað dýr sá ég og annars háttar. Það var eins og bjarndýr, reis upp á aðra hlið og bar þrjú rifbein í kjafti sér milli tannanna. Og því var skipað: „Stattu upp og éttu firn af kjöti.“
Eftir þetta sá ég enn eitt dýr, áþekkt hlébarða, en á síðum þess voru fjórir fuglsvængir. Þetta dýr hafði fjögur höfuð og því voru fengin völd.
Og enn sá ég í nætursýn minni fjórða dýrið, hræðilegt, ógnvekjandi og afar máttugt. Það hafði járntennur, hámaði í sig og bruddi og traðkaði undir fótum það sem það leifði. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og var með tíu horn.
Þegar ég virti fyrir mér hornin sá ég annað horn og smærra spretta fram meðal þeirra og voru þrjú af fyrri hornunum rifin upp til að rýma fyrir því. Á þessu horni voru augu, lík mannsaugum, og munnur sem mælti gífuryrði.
Meðan ég horfði á
var hásætum komið fyrir
og Hinn aldni tók sér sæti.
Klæði hans voru mjallahvít
og höfuðhár hans sem hrein ull.
Hásæti hans var eldslogi
og hjólin undir því logandi bál.
Eldur streymdi frá honum,
þúsundir þúsunda þjónuðu honum,
tugþúsundir tugþúsunda stóðu frammi fyrir honum.
Réttur var settur
og bókum flett upp.