Drottinn, þú hefur haft þóknun á landi þínu,
snúið við hag Jakobs.
Þú hefur fyrirgefið misgjörð lýðs þíns,
hulið allar syndir hans. (Sela)
Þú hefur sefað reiði þína,
látið af glóandi bræði þinni.
Rétt oss við aftur, Guð, frelsari vor,
og lát af gremju þinni gegn oss.
Ætlar þú að vera oss reiður um aldur og ævi,
láta reiði þína vara frá kyni til kyns?
Vilt þú ekki láta oss lifna við aftur
svo að lýður þinn geti glaðst yfir þér?
Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína
og veit oss hjálpræði þitt.
Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar.
Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna
og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans.
Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann
svo að dýrð hans megi búa í landi voru.
Elska og trúfesti mætast,
réttlæti og friður kyssast.
Trúfesti sprettur úr jörðinni
og réttlæti horfir niður af himni.
Þá gefur Drottinn gæði
og landið afurðir.
Réttlæti fer fyrir honum
og friður fylgir skrefum hans.