Kærið móður yðar, kærið,
því að hún er ekki eiginkona mín
og ég ekki eiginmaður hennar.
Hún skal fjarlægja skækjumerkið af andliti sínu
og hórumerkið milli brjósta sinna.
Annars fletti ég hana klæðum og skil hana eftir nakta
eins og daginn sem hún fæddist,
ég læt hana verða eins og eyðimörk,
geri hana eins og skrælnað land
og læt hana deyja úr þorsta.
Börnum hennar sýni ég enga miskunn
því að þau eru hórbörn.
Já, móðir þeirra drýgði hór,
hún, sem bar þau undir belti, varð sér til skammar
því að hún sagði:
„Ég elti ástmenn mína,
þeir gefa mér brauð mitt og vatn,
ull mína og hör,
olíu og vín.“
Þess vegna loka ég vegi þínum með þyrnigerði
og hleð fyrir með steinvegg,
svo að þú finnir ekki stigu þína.
Hún mun elta ástmenn sína
en ekki ná þeim,
hún mun leita þeirra
en ekki finna þá.
Þá mun hún segja:
„Nú fer ég og sný aftur til fyrsta eiginmanns míns
því að þá leið mér betur en núna.“
En hún skilur ekki að það var ég
sem gaf henni korn, vín og olíu
og jós yfir hana silfri
og gulli sem notað var í Baalsmyndir.
Þess vegna tek ég korn mitt aftur þegar tími þess kemur
og vín mitt þegar tími þess kemur,
ull mína og hör
sem hún hafði til að skýla nekt sinni.
Nú bera ég blygðun hennar
í augsýn ástmanna hennar
og enginn þeirra mun bjarga henni úr greipum mínum.
Ég mun binda enda á alla gleði hennar,
hátíðir, tunglkomudaga og hvíldardaga
og allar hátíðarsamkomur hennar