Biblíufélagið hefur gefið út Biblíuna á hljóðbók. Hljóðbókin er alls 90 klst og 19 mínútur. Níu leikarar komu að lestri á textanum en unnið hefur verið að verkefninu með hléum í 5 ár. Verkefnið var allt fjármagnað með frjálsum framlögum velunnara Biblíunnar.

Hægt er að hlusta á hljóðbókina án endurgjalds á heimasíðu Biblíufélagsins, biblian.is. Þá er Biblían fáanleg á Íslandi í gegnum fjölmargar hljóðbókarveitur, m.a. Storytel, Apple Books, Kobo Books og Audiobooks.com svo fáeinar séu nefndar. Listi yfir hljóðbókarveitur sem bjóða Biblíuna er á https://biblian.is/hljodbok/veitur/.

Hljóðbókin verður einnig fáanleg á Hljóðbókasafni Íslands innan fáeinna mánaða fyrir þau sem hafa aðgang að því og á næstu vikum kemur hljóðbókin í Biblíuappið frá Youversion, þar sem hægt er að hlusta án endurgjalds.

Nokkrar erlendar hljóðbókarveitur sem eru ekki aðgengilegar fyrir notendur á Íslandi, svo sem Spotify Audiobooks og Google Play Books, bjóða notendum erlendis að nálgast hljóðbókina á íslensku.