Í síðustu viku kom út fyrsta útgáfa Nýja testamentisins á suðursamísku, Orre Testamente. Þýðingin hefur tekið langan tíma, en aðalþýðandinn séra Bierna Leine Beinte, sem býr í Noregi, byrjaði verkefnið fyrir um 40 árum. Þýðingin hefur mikið vægi fyrir suðursamísku enda umfangsmesta textaútgáfa á tungumálinu og skiptir miklu máli fyrir viðhald og framtíð suðursamísku. „Biblíuþýðingar skipta gríðarlega miklu fyrir þróun tungumála. Frumþýðingar á Biblíunni marka tímamót fyrir tungumál í útrýmingarhættu“, að sögn Anders Göranzon, framkvæmdastjóra sænska Biblíufélagsins, sem gefur þýðinguna út ásamt norska Biblíufélaginu

Þegar séra Bierna Leine Beinte hóf verkefnið hafði suðursamíska enga samræmda stafsetningu. En fyrstu hluti verksins, Markúsarguðspjall kom út árið 1993 á vegum norska Biblíufélagsins. Síðan þá hefur sænska Biblíufélagið og kirkjur í báðum löndum komið að þýðingarverkefninu. Sunnudaginn 25. ágúst tóku fulltrúar samískra félaga og safnaða við nýju Biblíuþýðingunni í fjölsóttri hátíðarguðsþjónustu þar sem helgihaldið og lestrar voru flestir á suðursamísku.

Øyvind Haraldseid, framkvæmdastjóri norska Biblíufélagsins, lagði í guðsþjónustunni áherslu á þakklæti fyrir verkefni þýðingarteymisins. „Orð fá ekki lýst mikilvægi vinnunnar sem þau hafa unnið“, sagði Haraldseid. Fjórir lútherskir biskupar, bæði frá sænsku kirkjunni og norsku kirkjunni, stýrðu guðsþjónustunni þar sem fulltrúar frá nokkrum öðrum trúfélögum voru viðstaddir.

Suðursamískri tungu, menningu og kirkjulífi var fagnað með fjölbreyttum hætti, utan guðsþjónustunnar liðna helgi. Meðal annars með sýningu á suðursamísku handverki í menningarmiðstöðinni Gaaltije og með málþingi í Mid Sweden University.

Ljósmyndir frá Sameinuðu biblíufélögunum.