því að Davíð segir um hann:
Ávallt hafði ég Drottin fyrir augum mér.
Hann er mér til hægri handar svo að mér sé borgið.
Fyrir því gladdist hjarta mitt og tunga mín fagnaði.
Meira að segja mun líkami minn hvílast í von.
Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju
og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.
Kunna gerðir þú mér lífsins vegu
og návist þín fyllir mig fögnuði.
Systkin, óhikað get ég talað við ykkur um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn og leiði hans er til hér allt til þessa dags. En hann var spámaður og vissi að Guð hafði með eiði heitið honum að setja einhvern niðja hans í hásæti hans. Því var það upprisa Krists sem hann sá fyrir þegar hann sagði:
Ekki varð hann eftir skilinn í helju
og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.
Þennan Jesú reisti Guð upp og erum við allir vottar þess. Nú er hann hafinn upp til hægri handar Guðs og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum eins og þið sjáið og heyrið. Ekki steig Davíð upp til himna en hann segir:
Drottinn sagði við minn drottin:
Set þig mér til hægri handar
þangað til ég geri óvini þína að fótskör þinni.
Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt að þennan Jesú, sem þið krossfestuð, hefur Guð gert bæði að Drottni og Kristi.“
Er menn heyrðu þetta var sem stungið væri í hjörtu þeirra og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: „Hvað eigum við að gera, bræður?“
Pétur sagði við þá: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda. Því að ykkur er ætlað fyrirheitið, börnum ykkar og öllum þeim sem í fjarlægð eru, öllum þeim sem Drottinn Guð vor kallar til sín.“ Og með öðrum fleiri orðum brýndi hann þá og hvatti og sagði: „Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.“ En þau sem veittu orði hans viðtöku tóku skírn og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.