Allir voru furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: „Hvað getur þetta verið?“
En aðrir höfðu að spotti og sögðu: „Fólkið er drukkið af sætu víni.“
Þá steig Pétur fram og þeir ellefu og hann hóf upp raust sína og mælti til þeirra: „Gyðingar og allir Jerúsalembúar! Þetta skuluð þið vita. Ljáið eyru orðum mínum. Eigi eru þessir menn drukknir eins og þið ætlið enda aðeins komin dagmál. Hér er að rætast það sem spámaðurinn Jóel segir:
Það mun verða á efstu dögum, segir Guð,
að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn.
Synir yðar og dætur munu spá,
ungmenni yðar munu sjá sýnir
og aldraða yðar á meðal mun drauma dreyma.
Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar
mun ég á þeim dögum úthella anda mínum,
og þau munu spá.
Og ég mun láta undur verða á himnum uppi
og tákn á jörðu niðri,
blóð, eld og reykjarmökk.
Sólin mun snúast í myrkur
og tunglið í blóð
áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi.
En hver sá sem ákallar nafn Drottins mun frelsast.
Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður sem kom til ykkar frá Guði. Guð sannaði ykkur það með því að láta hann gera kraftaverk, undur og tákn meðal ykkar eins og þið vitið sjálfir. Hann fenguð þið framseldan eins og Guð vissi fyrir og felldi að áætlun sinni og þið létuð lögleysingja negla hann á kross og taka af lífi. En Guð leysti hann úr dauðans böndum og reisti hann upp, enda gat það aldrei orðið að dauðinn fengi haldið honum