Þegar kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Negeb, frétti að Ísrael væri á leiðinni eftir Atarimveginum réðst hann á Ísraelsmenn og tók nokkra þeirra til fanga. Þá vann Ísrael Drottni heit og sagði: „Ef þú selur þetta fólk í hendur mér mun ég helga borgir þeirra banni.“ Drottinn bænheyrði Ísrael og framseldi Kanverjana í hendur þeim. Ísrael helgaði þá sjálfa og borgir þeirra banni og gaf staðnum nafnið Horma.
Ísraelsmenn héldu frá Hórfjalli í átt til Sefhafsins til þess að sneiða hjá Edómslandi. En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“
Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“
Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.