Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði. Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli með því að ég ofsótti söfnuð Guðs. En af Guðs náð er ég það sem ég er og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég heldur náð Guðs sem með mér er. Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum við þannig og þannig hafið þið trúna tekið.
Ef við nú prédikum að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar. Við reynumst þá vera ljúgvottar um Guð þar eð við höfum vitnað um Guð að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. Ef dauðir rísa ekki upp er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn er trú ykkar fánýt. Syndir ykkar eru þá ekki enn í burtu teknar. Þá eru einnig þau glötuð sem sofnuðu í trú á Krist. Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna.