Hönd Drottins kom yfir mig. Hann leiddi mig burt í anda sínum og lét mig nema staðar í dalbotninum miðjum. Hann var þakinn beinum. Hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu og ég sá að þau voru fjölmörg, skinin bein, dreifð um dalbotninn.
Þá spurði hann mig: „Mannssonur, geta þessi bein lifnað við?“ Ég svaraði: „Drottinn Guð. Þú einn veist það.“ Þá sagði hann við mig: „Flyt þessum beinum spádóm og segðu við þau: Þið, skinin bein, heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Ég sendi anda í ykkur svo að þið lifnið við. Ég festi á ykkur sinar, þek ykkur með holdi, dreg þar hörund yfir og gef ykkur anda svo að þið lifnið við. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.“
Því næst boðaði ég það sem fyrir mig var lagt. Á meðan ég talaði heyrðist allt í einu hár hvinur og beinin færðust saman, hvert beinið að öðru. Ég horfði á þetta og sá að hold og hörund þakti þau en enginn lífsandi var í þeim.
Þá sagði hann við mig: „Flyt andanum spádóm, mannssonur, flyt spádóm og seg við andann: Svo segir Drottinn Guð: Kom, andi, úr áttunum fjórum og blás á þessa vegnu menn svo að þeir lifni við.“
Þá talaði ég eins og hann bauð mér og lífsandinn kom í þá svo að þeir lifnuðu við. Þeir risu á fætur og var það geysifjölmennur her.
Þá sagði hann við mig: „Mannssonur, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Þeir segja: Bein okkar eru skinin, von okkar brostin, það er úti um okkur. Spá því og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mína, úr gröfum ykkar og flyt ykkur til lands Ísraels. Þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mín, upp úr gröfum ykkar. Ég sendi anda minn í ykkur svo að þið lifnið við og bý ykkur hvíld í ykkar eigin landi. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn. Ég hef talað og ég geri eins og ég segi, segir Drottinn.“