„Taktu þér hinar ágætustu ilmjurtir, fimm hundruð sikla af fljótandi myrru, helmingi minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanel, tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmandi kalmus og fimm hundruð sikla miðað við þyngd helgidómssikils af kassía og eina hín af ólífuolíu. Úr þessu skaltu gera heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, að hætti smyrslagerðarmanna. Þetta skal verða heilög smurningarolía.
Með henni skaltu smyrja samfundatjaldið, örk sáttmálstáknsins, borðið ásamt öllum áhöldum þess, ljósastikuna ásamt áhöldum hennar, reykelsisaltarið, brennifórnaraltarið ásamt öllum áhöldum þess og kerið ásamt stétt þess. Þú skalt helga þau svo að þau verði háheilög, sérhver sem snertir þau verður heilagur.
Þú skalt einnig smyrja Aron og syni hans og vígja þá til að þjóna sem prestar fyrir mig.
Þú skalt ávarpa Ísraelsmenn og segja: Þetta skal vera mér heilög smurningarolía frá kyni til kyns. Henni má ekki dreypa á hörund nokkurs manns og þið megið ekki búa til neitt annað með sömu aðferð, hún er heilög og skal vera ykkur heilög. Sérhver, sem gerir sams konar smyrsl og fær það óvígðum manni, skal upprættur úr þjóð sinni.“
Drottinn sagði við Móse: „Taktu ilmefni, fljótandi ilmkvoðu, ilmolíu, ilmandi trjákvoðu og hreint reykelsi, jafnmikið af hverju, og gerðu úr þessu ilmandi reykelsi að hætti smyrslagerðarmanna, saltað, hreint og heilagt.
Þú skalt steyta dálítið af því í fínt duft og setja nokkuð af því fyrir framan örkina með sáttmálstákninu í samfundatjaldinu þar sem ég mun eiga við þig samfundi. Það skal vera ykkur háheilagt. Reykelsi, sem þú gerir á þennan hátt, megið þið ekki gera handa sjálfum ykkur. Þú skalt telja það helgað Drottni. Sérhver maður, sem gerir annað eins til að njóta ilms þess, skal upprættur úr þjóð sinni.“