Nú styttist í að hljóðbók Biblíunnar verði tilbúin og laugardaginn 31. ágúst kl. 11, verður útgáfunni fagnað á Kirkjudögum í Lindakirkju. Biblían í heild hefur ekki áður komið út á íslensku sem hljóðbók. Útgáfa Biblíunnar á hljóðbók er enda stórt verkefni fyrir lítið en þó öflugt félag eins og Hið íslenska biblíufélag. Níu leikarar komu að lestri á textanum og unnið hefur verið að verkefninu með hléum í 5 ár.

Hljóðbók Biblíunnar hefur alfarið verið fjármögnuð með styrkjum frá einstaklingum, kirkjum og félagasamtökum. Þar hafa Bakhjarlar Biblíunnar spilað stórt hlutverk, en Bakhjarlar Biblíunnar eru ríflega 300 einstaklingar sem styrkja Biblíufélagið með mánaðarlegri greiðslu sem rennur til stafrænna verkefna félagsins.