Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.
Elkana sneri aftur heim til Rama en drengurinn varð eftir og þjónaði Drottni undir handleiðslu Elí prests.