Dagana 25. ágúst – 1. september stendur Þjóðkirkjan að Kirkjudögum. Dagskrá Kirkjudaga verður fjölbreytt og við allra hæfi.

Kirkjudagar hefjast með guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem verður jafnframt lokaguðsþjónusta frú Agnesar M Sigurðardóttur sem biskups Íslands. Að guðsþjónustu lokinni verða pílagrímsgöngur frá kirkjum á höfuðborgarsvæðinu að Lindakirkju þar sem boðið verður upp á helgistund.

Mánudag til fimmtudags (26.-29. ágúst) verður boðið upp málstofur í Lindakirkju um margvísleg málefni. Biblíufélagið kemur að skipulagi málstofa á fimmtudeginum 29. ágúst undir yfirskriftinni „Friður í heimi“. Þessa daga verður kaffihús í Lindakirkju þar sem hægt verður að kaupa veitingar.

Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar heldur utan um Sálmafoss á föstudeginum 30. ágúst, en 16 kórar skráð sig til þátttöku í kóra- og sönghátíð. Þá verða kynningarbásar opnir þar sem fjölbreytt kristilegt starf verður kynnt, m.a. starf Biblíufélagsins.

Á laugardeginum 31. ágúst er gert ráð fyrir fjölbreyttri dagskrá fyrir alla aldurshópa í og við Lindakirkju, m.a. hoppukastalar, völundarhús, messy-church, kynningar, fyrirlestrar, tónlist, kórar, kaffihús og margt fleira.

Kirkjudögum lýkur svo með vígslu Guðrúnar Karls Helgudóttur til embættis biskups í Hallgrímskirkju sunnudaginn 1. september.

Hægt er að fylgjast með undirbúningi Kirkjudaga og læra meira um dagskrána þegar nær dregur á https://www.facebook.com/kirkjudagar.