Hlýðið á mig, eylönd,
hyggið að, fjarlægu þjóðir.
Drottinn hefur kallað mig allt frá móðurlífi,
nefnt mig með nafni frá því ég var í móðurkviði.
Hann gerði munn minn sem beitt sverð
og huldi mig í skugga handar sinnar.
Hann gerði mig að hvassri ör
og faldi mig í örvamæli sínum.
Hann sagði við mig: „Þú ert þjónn minn,
Ísrael, ég læt þig birta dýrð mína.“
En ég svaraði: „Ég hef erfiðað til ónýtis,
sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn
en réttur minn er hjá Drottni
og laun mín hjá Guði mínum.“
En nú segir Drottinn,
hann sem myndaði mig í móðurlífi
til að vera þjónn sinn,
til að ég sneri Jakobi aftur til sín
og til að Ísrael yrði safnað saman hjá honum.
Ég er dýrmætur í augum Drottins
og Guð minn varð minn styrkur.
Hann segir: Það er of lítið að þú sért þjónn minn
til að endurreisa ættbálka Jakobs
og leiða þá aftur heim
sem varðveist hafa af Ísrael.
Ég geri þig að ljósi fyrir þjóðirnar
svo að hjálpræði mitt nái allt til endimarka jarðar.
Svo segir Drottinn, lausnari Ísraels, hans heilagi,
við hinn fyrirlitna
sem fólk hefur andstyggð á,
við þjón harðstjóranna:
Konungar munu sjá þetta og rísa upp,
höfðingjar falla fram
vegna Drottins sem er trúr,
vegna Hins heilaga Ísraels sem valdi þig.
Svo segir Drottinn:
Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig,
á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér,
ég myndaði þig og gerði þig að sáttmála fyrir þjóðina
til þess að reisa við landið
og úthluta eyddum erfðalöndum,
til að segja við hina fjötruðu: „Gangið út,“
og við þá sem í myrkri sitja: „Komið fram í dagsbirtuna.“
Á öllum fjöllum verða þeir á beit
og finna haglendi á hverri gróðurvana hæð.
Þá mun hvorki hungra né þyrsta
og hvorki mun breyskja né sólarhiti vinna þeim mein
því að hann sem miskunnar þeim vísar þeim veg
og leiðir þá að uppsprettulindum.