Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.
Hver trúði því sem oss var boðað
og hverjum opinberaðist armleggur Drottins?
Hann óx upp eins og viðarteinungur fyrir augliti Drottins,
eins og rótarkvistur úr þurri jörð.
Hann var hvorki fagur né glæsilegur ásýndum
né álitlegur svo að oss fyndist til um hann.
Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann,
harmkvælamaður og kunnugur þjáningum,
líkur manni sem menn byrgja augu sín fyrir,
fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.