Aðalfundur hins íslenska Biblíufélags var haldinn í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum, þann 29. apríl 2024. Forseti félagsins og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir setti fundinn með ritningarlestri og bæn.
Í árskýrslu stjórnar var lögð áhersla á fimm meginatriði sem standa upp úr starfsemi síðasta árs
- Ný prentbiblía á hagstæðu verði var gefin út á árinu. Það er fyrsta endurútgáfa á 2007 þýðingu Biblíunnar. Prentuð voru um 5200 eintök.
- Ný altarisbiblía með stóru letri var einnig prentuð í um 500 eintökum.
- Félagið opnaði vefverslun þar sem biblíurnar eru seldar. Vefverslunin tengist beint við Górilla vöruhús og bókhaldskerfi félagsins.
- Stórátak var gert í hljóðritun Biblíunnar en stór styrkur fékkst til þess frá Orðinu (áður Gídeon). Hljóðritanir hófust á 16 ritum Gamla testamentisins.
- Góðir styrkir fengust til starfseminnar s.s. styrkur frá Rannís til bókaútgáfu.
Á fundinum var einnig farið yfir önnur verkefni félagsins á árinu, m.a. virka viðveru á samfélagsmiðlum, hlaðvarpið „Orð kvöldsins“, Biblíutextann á stafrænu formi á ýmsum miðlum, tímaritið B+ og erlend samskipti svo fátt eitt sé nefnt.
Á fundinum fór fram umræðu um möguleika á því að Biblían sé gerð aðgengileg á nútímamáli. Ýmsum flötum var velt upp, minnt á að félagið hefði ábyrgð í tengslum við frumtextann og fram kom fyrirspurn um útgáfuréttindi á endurorðun textans. Þetta er spennandi umræða sem mun vafalaust halda áfram innan stjórnarinnar á næstu mánuðum.
Jón Kristinn Lárusson hjá 360 Ráðgjöf kynnti ársreikning félagsins fyrir hönd gjaldkera. Heildarafkoma ársins var neikvæð um eina milljón króna. Sigurbjörg Níelsdóttir og Bendt H Bendtsen voru skoðunarmenn reikninga og lögðu til að hann yrði samþykktur, sem var gert. Sigurbjörg og Pétur Þorsteinsson voru kjörin skoðunarmenn fyrir komandi starfsár.
Séra Grétar Halldór Gunnarsson gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu til 4 ára en Ásta Guðrún Beck lauk stjórnarsetu sinni. Á fundinum tilkynnti Hrönn Svansdóttir að hún hyggðist ganga úr stjórn en myndi starfa áfram með félaginu að því að afla fleiri bakhjarla og félagsfólks. Hrönn ákvað að gera þetta í ljósi þess að tvær manneskjur undir 30 ára sýndu áhuga á stjórnarsetu, og taldi hún mikilvægt að gefa ungu fólki tækifæri til að starfa í stjórn félagsins. Fór svo að Karítas Hrundar Pálsdóttir var kjörinn í stjórn til fjögurra ára og Matthías Guðmundsson til þriggja ára (til að ljúka tímabili Hrannar Svansdóttur). Grétar Halldór var og kosinn til fjögurra ára.
Í lok fundar lagði lagði Kristján Þór Gunnarsson til að félagsgjaldið yrði hækkað úr 3.000 í 3.900 krónur. Það var samþykkt samhljóða.
Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, þakkaði í lok fundar fyrir samstarf liðinna 12 ára, en hún mun láta af störfum sem forseti Biblíufélagsins nú í haust. Þá leiddi Frú Agnes fundargesti í bæn áður en fundi var slitið.