Þann 9. mars síðastliðinn kom Nýja Testamentið út á tungumálinu Shekgalagari. Þýðingarvinnan tók 14 ár en markmiðið var að gera ritninguna aðgengilega fyrir Bakgalagari fólkið í Botsvana. Rúmlega 78,000 tilheyra Bakgalagari og hafa Shekgalagari að hjarta- eða móðurmáli.

Biblíufélag Botsvana vann að verkefninu í samstarfi við Lútherska biblíuþýðendur. Fyrsta upplag Nýja testamentisins var prentað í Kína, alls 10.000 eintök.

Áður en Nýja testamentið kom út notaðist Bakgalagari fólkið við yfir 100 ára gamla biblíuþýðingu yfir á tungumálið Setswana, sem er víða talað á svæðinu. Hins vegar skapaði það ýmis vandkvæði. Ekki var um hjartamál fólksins að ræða, og orðaforði og málfræði Setswana hefur þróast og breyst mikið á 100 árum.

Fögnuðurinn 9. mars var einnig upphafsdagur átaks sem kallast „Morimo o bola o logka o bua Shekgalagari boobo“, eða „Guð talar líka á Shekgalagari.“ Áhrifarík skilaboð um að Guð eigi beint erindi við Bakgalagari fólkið.

Samstarf Biblíufélags Botswana við Lútherska biblíuþýðendur og bandarísku hreyfinguna Faith Comes By Hearing, gerði mögulegt að gefa út og dreifa hljóðbók Nýja testamentisins á sama tíma og prentuðu Biblíurnar.

Nú þegar hefur Biblíufélagið í Botsvana lokið við þýðingar á Nýja testamentinu á tveimur tungumálum auk þýðingar á Biblíunni í heild á einu tungumáli til viðbótar. En það eru fleiri verkefni framundan.

Næsta þýðingarverkefni, þýðing á tungumálið Wayeyi er væntanleg í byrjun árs 2026. Nú þegar eru komnar tilraunaútgáfur af Markúsar- og Matteusarguðspjalli auk þess sem hljóðbók guðspjallanna er komin í dreifingu á Wayeyi.

Um Botsvana

Botsvana er landlukt land í Suður Afríku, með landamæri að Suður-Afríku, Namibíu, Zambíu og Zimbabve. Um 75% landsins eru í Kalahari eyðimörkinni. Alls eru 2,6 milljón íbúar í Botsvana og um 72% íbúa segjast vera kristnir. Forfeðratrú, sem kallast Badimo, er iðkuð af 4% þjóðarinnar en aðrir trúarhópar eru smærri. Áður en kristni varð mótandi trú í landinu var andadýrkun hvers konar mótandi trúarbrögðin í Botsvana.