Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: „Hvers vegna talar þú til fólksins í dæmisögum?“
Hann svaraði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, öðrum er það ekki gefið. Því að þeim sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur. Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum að sjáandi sjá þau ekki og heyrandi heyra þau ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja:
Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja
og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.
Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið
og illa heyra þeir með eyrum sínum
og augunum hafa þeir lokað,
svo að þeir sjái ekki með augunum
né heyri með eyrunum
og skilji með hjartanu og snúi sér
og ég lækni þá.

En sæl eru augu ykkar af því að þau sjá og eyru ykkar af því að þau heyra. Sannlega segi ég ykkur: Margir spámenn og réttlátir menn þráðu að sjá það sem þið sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þið heyrið en heyrðu það ekki.