Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.
Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki.
Eftir þetta birtist Jesús í annarri mynd tveimur þeirra þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. Þeir sneru við og kunngjörðu hinum en þeir trúðu þeim ekki heldur.
Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn.