En ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu og ég skrifa þetta ekki heldur til þess að svo verði við mig gert. Mér væri betra að deyja. Enginn skal ónýta það sem ég tel mér til gildis. Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá gefur það mér enga ástæðu til að miklast af því. Ég er knúinn til þess. Vei mér ef ég boða það ekki. Geri ég þetta af frjálsum vilja ber mér að fá laun. En finni ég mig til þess knúinn hefur Guð falið mér ráðsmennsku. Hver eru þá laun mín? Þau að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það sem ég á rétt á.
Þótt ég sé öllum óháður hef ég gert sjálfan mig að þræli allra til þess að ávinna sem flesta. Ég hef verið Gyðingum sem Gyðingur til þess að ávinna Gyðinga. Þótt ég lifi ekki eftir lögmáli Móse breyti ég eftir því til þess að ávinna þá sem fara eftir því. Til þess að ávinna þá sem þekkja ekki lögmál Móse breyti ég ekki eftir því enda þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs heldur bundinn lögmáli Krists. Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Allt geri ég vegna fagnaðarerindisins til þess að ég fái hlutdeild í blessun þess.
Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.