Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans. Sveitadúkurinn lá ekki með línblæjunum heldur sér, samanvafinn á öðrum stað.
Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.