Biblíufélög um allan heim gáfu út nýjar Biblíuþýðingar á 106 tungumálum, sem eru töluð af 1,25 milljörðum einstaklinga á árinu 2023. Þetta afrek er sönnun þess að Biblíufélög um allan heim hafa metnað til að gera Biblíuna aðgengilega öllum, alstaðar í heiminum.

Frá Benin í Afríku til Malasíu í suðaustur Asíu, hafa Biblíufélög náð til nýrra 72 málsvæða þar sem 100 milljónir einstaklinga hafa aðgang að Heilagri ritningu á sínu hjartamáli í fyrsta sinn. Biblíufélög heimsins hafa stigið stór skref á liðnu ári til að tryggja að fagnaðarerindið sé aðgengilegt fólki með fjölbreyttan bakgrunn og reynsluheim.

Þá vinna Biblíufélög mikilvægt starf þegar kemur að endurskoðun á eldri þýðingum og í mörgum tilfellum endurþýðingum á Biblíutextanum til að textinn endurspegli þróun tungumála. Nýjar og endurskoðaðar Biblíuþýðingar komu út á 46 tungumálum á árinu 2023, á tungumálum sem 1,15 milljarður talar.

Það má nefna að Biblían í heild var þýdd í fyrsta sinn á tvö tungumál í Eþíópíu, Konso og Kambatta, en Konsóþýðingin var um árabil studd af Hinu íslenska biblíufélagi í samvinnu við Samband íslenskra kristniboðsfélaga. Á Indlandi komu út þýðingar í fyrsta inn á fimm smáum tungumál, monsang -naga, moyon – naga, thangal -naga, chakhesang og rabha. Þá má nefna að Biblían í heild kom í fyrsta sinn út á tungumáli mohawk samfélagsins í Kanada. Þýðing einstakra hluta Biblíunnar fyrir mohawk samfélagið hófst 1715, en verkinu lauk 308 árum síðar, þrátt fyrir að kanadísk stjórnvöld hefðu með markvissum hætti reynt að útrýma menningu þeirra og tungumáli.

Þá er vert að segja frá því að einstakir þættir Biblíunnar hafa nú verið þýddir á 15 mismunandi táknmál heyrnarlausra, sem er táknað af um 2,5 milljón einstaklingum. Því miður hafa aðeins 60 af 400 táknmálum Biblíuna á sínu máli og aðeins eitt táknmál hefur Biblíuna í heild.

Það hefur margt áunnist á liðnu ári, en framundan er enn eitt ár, þar sem Biblíufélög um allan heim munu starfa af krafti til að gera Biblíuna aðgengilega sem flestum á sínu hjartamáli.