Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við Jesú: „Meistari, við viljum sjá þig gera tákn.“
Jesús svaraði þeim: „Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar. Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana því að þeir tóku sinnaskiptum við prédikun Jónasar og hér er meira en Jónas. Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons og hér er meira en Salómon.“