En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum. Hann hafði verið fræddur um veg Drottins og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar. Þessi maður tók nú að tala skörulega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg. Nú fýsti hann að fara yfir til Akkeu. Kristnir menn í Efesus rituðu lærisveinunum þar og hvöttu þá að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú því að hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum að Jesús væri Kristur.
Meðan Apollós var í Korintu fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina. Hann sagði við þá: „Fenguð þið heilagan anda er þið tókuð trú?“
Þeir svöruðu: „Nei, við höfum ekki einu sinni heyrt að heilagur andi sé til.“
Hann sagði: „Upp á hvað eruð þið þá skírðir?“
Þeir sögðu: „Skírn Jóhannesar.“
Þá mælti Páll: „Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði fólkinu að trúa á þann sem eftir sig kæmi, það er á Jesú.“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú. Er Páll hafði lagt hendur yfir þá kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu tungum og fluttu spámannlegan boðskap. Þessir menn voru alls um tólf.