Jóhannes vitnar um hann og hrópar: „Þetta er sá sem ég átti við þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig var á undan mér enda fyrri en ég.“
Af gnægð hans höfum vér öll þegið, náð á náð ofan. Lögmálið var gefið með Móse en náðin og sannleikurinn eru komin með Jesú Kristi. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér. Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“
Og Jóhannes vitnaði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“