Fjöldi fólks var saman kominn innan dyra og utan, til að fagna útkomu Biblíunnar á konsómáli á kristniboðsstöðinni gömlu í Konsó sunnudaginn 11. febrúar. 

Karl Jónas Gíslason kristniboði var fulltrúi Kristniboðssambandsins og Hins íslenska Biblíufélags á hátíðinni í gær, 11. febrúar og flutti kveðjur, en bæði samtökin hafa stutt vel við þýðingarvinnuna og kom Biblíufélagið upp sérstöku Biblíuhúsi í Konsó. Þar hefur þýðingarvinnan farið fram. Með Karli Jónasi var Guðlaugur bróðir hans en þeir eru báðir uppaldir í Eþíópíu og hafa starfað þar á fullorðins árum. Ferðin verður nýtt til að heimsækja Ómó Rate, við landamæri Keníu en þangað og til Voitó  héldu kristniboðarnir þegar starfið í Konsó var orðið sjálfstætt

Svo skemmtilega vill til að í ár eru einnig 70 ár frá því fyrstu kristniboðarnir, Felix Ólafsson og Kristín Guðleifsdóttir, hófu störf í Konsó við afar frumstæðar aðstæður. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á samfélaginu öllu á þessum tíma og er kirkjan öflugur farvegur margvíslegra framfara.

Starfið hefur vaxið og um 200 þúsund manns eru í Mekane Yesu kirkjunni í Konsó. Þessi dóttur- eða systurkirkja er orðin álíka fjölmenn og þjóðkirkjan hér heima og afrakstur af áratuga starfi kristniboða frá Íslandi. Á þriðja tug Íslendinga starfaði þar um lengri og styttri tíma og sinntu boðun, fræðslu, kennslu og skólamálum, komu upp og ráku heilsugæslu og sinntu neyðaraðstoð á tímum hungursneyða á 8. og 9. áratuginum. Umfangsmikið áveitukerfi hefur bætt mjög úr fæðuöryggi á svæðinu, sem var þróunarverkefni fjármagnað að mestu af Evrópusambandinu.  Í fyrra varð Konsó sérstakt starfssvæði kirkjunnar, e.k. biskupsdæmi eða sýnóda. Var þá einnig mikil fagnaðarhátíð og þakkir sendar til Íslands fyrir að hafa komið til Konsó.

Útgáfa Biblíunnar allrar á konsómáli er menningarsögulegur atburður og mun hjálpa til við viðhald og varðveislu Konsómálsins og þeirra menningarverðmæta sem felast í tungumálinu. Þegar Nýja testamentið kom út á sínum tíma var það gefið út með eþíópísku letri en nú er Biblían öll með latnesku letri.

Ljósmyndir með fréttinni: Karl Jónas Gíslason