Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, lést í morgun á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík, 77 ára að aldri. Þau eru mörg sem minnast hans með hlýju, þökk og virðingu.

Hann Karl kom víða við og vill Hið íslenska biblíufélag sérstaklega lyfta að ljósi og þakka störf hans í þágu félagsins í gegnum árin. Verður það helst að nefna að hann þjónaði sem forseti félagsins þau ár sem hann var biskup, árin 1998 til 2012. Á þeim tíma sem hann var forseti félagsins kom hin nýja Biblíuþýðing út, árið 2007. Þá var á því sama tímabili unnið að mörgum framfaraverkefnum í þágu ritningarinnar. Þess fyrir utan þá má segja að flest allt það sem Sr. Karl tók sér fyrir hendur í starfi og á ritvellinum hafi orðið til þess að auka veg Biblíunnar og þess góða erindis sem hún geymir.

Blessuð sé minning sr. Karls Sigurbjörnssonar, og blessað sé allt það sem hann unni.