Þú þekkir háðung mína, skömm og svívirðing,
allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.
Háðungin kramdi hjarta mitt svo að ég örvænti.
Ég vonaði að einhver sýndi meðaumkun en þar var enginn,
og að einhverjir hugguðu en fann engan.
Þeir fengu mér malurt til matar
og við þorstanum gáfu þeir mér edik að drekka.
Verði borðið fyrir framan þá að gildru,
fórnarveisla þeirra þeim að snöru,
augu þeirra myrkvist svo að þeir sjái ekkert,
lendar þeirra skjálfi um alla framtíð.
Hell þú reiði þinni yfir þá
og lát þína brennandi gremi ná þeim.
Búðir þeirra verði eyddar
og enginn búi í tjöldum þeirra
því að þann sem þú hefur lostið ofsækja þeir
og auka þjáningar þeirra er þú hefur sært.
Bæt sök við sök þeirra
og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.
Verði þeir afmáðir úr lífsins bók
og eigi skráðir með réttlátum.
En ég er volaður og þjáður,
hjálp þín, Guð, mun bjarga mér.
Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði
og mikla hann í lofsöng.
Það mun Drottni líka betur en uxar,
ungneyti með hornum og klaufum.
Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast,
þér sem leitið Guðs – hjörtu yðar lifni við
því að Drottinn hlustar á hina fátæku
og fyrirlítur eigi bandingja sína.
Hann skulu lofa himinn og jörð,
höfin og allt sem í þeim hrærist.
Því að Guð hjálpar Síon,
reisir við borgirnar í Júda
og menn skulu búa þar
og fá landið til eignar.
Niðjar þjóna hans munu erfa það
og þeir er elska nafn hans byggja þar.