Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“
Og hann svaraði: „Hér er ég.“
Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“
Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns. Og Abraham nefndi stað þennan „Drottinn sér“ og því segja menn enn í dag: „Á fjallinu birtist Drottinn.“
Engill Drottins kallaði öðru sinni til Abrahams af himni og mælti: „Ég sver við sjálfan mig, segir Drottinn: Af því að þú gerðir þetta og synjaðir mér ekki um einkason þinn mun ég ríkulega blessa þig og margfalda kyn þitt mikillega eins og stjörnur á himni, eins og sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu ná borgarhliðum óvina sinna. Allar þjóðir heims munu blessun hljóta af niðjum þínum vegna þess að þú hlýðnaðist raust minni.“
Abraham sneri nú aftur til sveina sinna og þeir tóku sig upp og gengu saman til Beerseba. Og Abraham bjó í Beerseba.