Engli safnaðarins í Sardes skaltu rita:
Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs, stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín. Þú lifir að nafninu til en ert samt dauður. Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu sem ekki stenst fyrir Guði mínum. Minnst þú þess sem þú hefur numið og heyrt og varðveit það og bæt ráð þitt. Ef þú vakir ekki mun ég koma eins og þjófur og þú munt alls ekki vita á hverri stundu ég kem yfir þig. En þú átt fáein nöfn í Sardes sem ekki hafa saurgað klæði sín og þau munu ganga með mér í hvítum klæðum því að þau eru makleg. Sá er sigrar skal þá skrýðast hvítum klæðum og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans frammi fyrir föður mínum og englum hans.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.