Þín vegna ber ég háðung
svo að andlit mitt roðnar af blygðun.
Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum
og framandi sonum móður minnar.
Vandlæting vegna húss þíns hefur tært mig upp
og smánaryrði þeirra er smána þig hafa lent á mér.
Ég auðmýkti mig með föstu
en fyrir það fékk ég háð eitt,
hafði hærusekk fyrir klæði
og þeir ortu háðkvæði um mig.
Þeir sem sitja í borgarhliðinu slúðra um mig
og drukknir menn syngja um mig háðkvæði.
En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar.
Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns
sakir mikillar miskunnar þinnar.
Bjarga mér úr kviksyndinu svo að ég sökkvi eigi,
bjarga mér frá hatursmönnum mínum
og úr hafdjúpinu.
Lát eigi vatnselginn færa mig í kaf,
né hyldýpið svelgja mig
og lát eigi brunninn ljúkast aftur yfir mér.
Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar,
snú þér að mér af mikilli miskunn þinni.
Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum
því að ég er í nauðum staddur,
flýt þér að bænheyra mig.
Ver mér nálægur, leys mig,
frelsa mig frá óvinum mínum.