Ég vil kveða um ástvin minn,
ástarkvæði um víngarð hans.
Ástvinur minn átti víngarð
á frjósamri hæð.
Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið,
gróðursetti gæðavínvið.
Hann reisti turn í honum miðjum
og hjó þar þró til víngerðar.
Hann vonaði að garðurinn bæri vínber
en hann bar muðlinga.
Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn,
milli mín og víngarðs míns.
Hvað varð meira að gert við víngarð minn
en ég hafði gert við hann?
Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber?
En nú vil ég kunngjöra yður
hvað ég ætla að gera við víngarð minn:
Ég ríf niður limgerðið
svo að hann verði nagaður í rót,
brýt niður múrvegginn
svo að hann verði troðinn niður.
Ég vil gera hann að auðn,
hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp,
þar skulu vaxa þistlar og þyrnar
og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni.
Því að víngarður Drottins er Ísraels hús
og Júdamenn ekran sem hann ann.
Hann vænti réttlætis
en sá blóði úthellt,
vænti réttvísi
en neyðaróp kváðu við.