Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
og augu þín dúfur
undir andlitsblæjunni.
Hár þitt er sem geitahjörð
sem rennur niður Gíleaðfjall,
tennur þínar ær í hóp,
nýrúnar og baðaðar,
allar tvílembdar
og engin lamblaus.
Varir þínar eru sem skarlatsborði
og munnur þinn yndislegur,
gagnaugun eins og sneitt granatepli
undir andlitsblæjunni.
Háls þinn er eins og turn Davíðs
sem vopnum er raðað á,
þar hanga þúsund skildir,
öll hertygi garpanna.
Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
dádýrstvíburar
að leik meðal lilja.
Þegar kular í dögun
og skuggarnir flýja
mun ég halda til myrruhólsins
og reykelsishæðarinnar.
Öll ertu fögur, ástin mín,
lýtalaus með öllu.
Komdu með mér frá Líbanonsfjalli, brúður,
með mér frá Líbanonsfjalli,
niður af tindi Amana,
af tindum Senír og Hermon,
frá bælum ljónanna, klettum hlébarðanna.
Þú hefur rænt hjarta mínu,
systir mín, brúður,
hjarta mínu hefurðu rænt með augnaráðinu einu,
einum hlekk úr hálsfesti þinni.
Hve yndisleg eru atlot þín, systir mín, brúður,
hve miklu eru atlot þín ljúfari en vín
og angan smyrsla þinna betri en nokkur ilmjurt.
Hunang drýpur af vörum þínum, brúður,
hunang og mjólk undir tungu þinni
og ilmur klæða þinna er sem angan Líbanonsfjalls.