Biblíudagurinn er haldinn hátíðlegur sunnudaginn 4. febrúar. Á Biblíudaginn hefur verið hefð að taka samskot í kirkjum og kristnum trúfélögum til stuðnings Hins íslenska biblíufélags. Stærsta verkefni félagsins á árinu 2024 er útgáfa hljóðbókar Biblíunnar í heild. Verkið er langt komið, en stefnt er að því að upptökum ljúki í lok sumars.

Það eru 440 ár síðan að Biblían í heild var fyrst prentuð á íslensku. Guðbrandur biskup nýtti sér nýjustu tækni síns tíma til að koma texta Biblíunnar á framfæri. Biblíufélagið fetar í fótspor Guðbrands, og leitar stöðugt nýrra leiða til að gera ritninguna aðgengilega sem flestum. Birting ritningartexta á samfélagsmiðlum, áskrift að daglegum Biblíulestrum í tölvupósti, stafrænt aðgengi að Biblíunni á vefsíðu og í smáforritum eru allt hluti af því verkefni. Biblíufélagið hefur jafnframt nýtt sér framþróun í stafrænni prenttækni, m.a. við útgáfu altarisbiblíu sem kom út nú í haust.

Hið íslenska biblíufélag tekur þátt í samstarfi Biblíufélaga um allan heim og hefur á liðnum árum stutt við útbreiðslu Guðs orðs í Kína, á Haiti og í Sýrlandi.

Verkefni Hins íslenska Biblíufélags hefur verið skýrt frá stofnun félagsins. Við vonum að sem flestar kirkjur taki þátt í Biblíudeginum nú í ár og leggi okkur lið við það mikilvæga verkefni að gera Biblíuna aðgengilega sem flestum.