Safnist saman og lofið Guð,
Drottin, sem er uppspretta Ísraels.
Þar er Benjamín yngstur
en ríkir yfir þeim,
höfðingjar Júda í hóp,
höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.
Neyt þú afls þíns, Guð,
beit þeim krafti sem þú birtir oss
frá musteri þínu í Jerúsalem.
Konungar munu færa þér gjafir.
Ógna þú dýrinu í sefinu,
uxaflokkunum
ásamt bolakálfum þjóðanna.
Traðka niður þá sem girnast silfur.
Tvístra þú þjóðum er unna ófriði.
Menn munu koma með eirgripi frá Egyptalandi,
Kús mun lyfta höndum sínum til Drottins.
Syngið Guði, ríki jarðar,
syngið Drottni lof, (Sela)
honum sem ríður um himininn, himininn ævaforna,
og lætur raust sína hljóma, sína voldugu raust.
Lofið veldi Guðs,
yfir Ísrael er hátign hans
og máttur hans í skýjunum.
Óttalegur er Guð í helgidómi sínum,
Ísraels Guð veitir lýð sínum mátt og megin.
Lofaður sé Guð.