Míkael, leiðtoginn mikli,
sem verndar syni þjóðar þinnar,
mun þá birtast.
Verða þá slíkir hörmungatímar
að eigi verður við jafnað frá því að þjóðin varð til.
Á þeim tíma mun þjóð þín bjargast,
allir þeir sem skráðir eru í bókinni.
Margir þeirra sem hvíla í dufti jarðar
munu upp vakna,
sumir til eilífs lífs,
aðrir til lasts og ævarandi smánar.
Hinir vitru munu skína eins og björt himinhvelfing
og þeir sem beina mörgum til réttlætis
verða sem stjörnur um aldur og ævi.
En leyndu þessum orðum, Daníel, og innsiglaðu bókina þar til dregur að endalokum. Menn munu leita víða og skilningur þeirra mun aukast.“
Ég, Daníel, leit þá upp og sá hvar tveir aðrir stóðu, annar mín megin fljótsins, hinn handan þess. Annar þeirra sagði við línklædda manninn sem stóð yfir fljótinu: „Hve langt mun þar til þessum furðuverkum linnir?“ Þá heyrði ég að línklæddi maðurinn, sem stóð yfir fljótinu, sór við Hinn eilífa, fórnaði hægri og vinstri hendi til himins og sagði: „Ein tíð, tvær tíðir og hálf tíð; þegar máttur hinnar heilögu þjóðar er brotinn á bak aftur mun allt þetta ganga eftir.“
Ég hlustaði á en skildi ekki og spurði: „Herra minn, hverjar verða lyktirnar?“ Hann svaraði: „Farðu, Daníel, því að þessi orð eru leyndardómur, innsigluð allt til endalokanna. Margir verða skírðir, reyndir og hreinsaðir, illmennin munu fremja ranglæti og enginn hinna ranglátu mun skilja neitt; en hinir vitru munu skilja það. Frá því að daglega fórnin verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist munu líða eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar. Sæll er sá sem þolgóður þreyr uns eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dagar eru liðnir. En gakk þú til hvíldar. Þú munt rísa upp og taka við hlut þínum við endalok daganna.“