Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.
Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. Því að hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar sjálfan sig í spegli. Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt hvernig það var. En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því sem hann heyrir heldur framkvæmir það, verður sæll í verkum sínum.
Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt. Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.