Og Jesús hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi. Einhver sagði við hann: „Drottinn, eru þeir fáir sem hólpnir verða?“
Jesús sagði við þá: „Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar því að margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta. Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: Herra, ljúk þú upp fyrir oss! mun hann svara yður: Ég veit ekki hvaðan þér eruð. Þá munuð þér segja: Vér höfum þó etið og drukkið með þér og þú kenndir á götum vorum. Og hann mun svara: Ég segi yður, ég veit ekki hvaðan þér eruð, farið frá mér, allir illgjörðamenn! Þar verður grátur og gnístran tanna er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki en yður út rekin. Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki. Þá geta síðastir orðið fyrstir og fyrstir síðastir.“