Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“ Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir en hann svaraði engu.
Þá spurði Pílatus hann: „Heyrir þú ekki hve mjög þeir vitna gegn þér?“
En Jesús svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.

Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa fólkinu lausan einn bandingja, þann er það vildi. Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni. Sem þeir nú voru saman komnir sagði Pílatus við þá: „Hvorn viljið þið að ég gefi ykkur lausan, Barabbas eða Jesú sem kallast Kristur?“ Hann vissi að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.
Meðan Pílatus sat á dómstólnum sendi kona hans til hans með þessi orð: „Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.“
En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas en að Jesús yrði deyddur. Landshöfðinginn spurði: „Hvorn þeirra tveggja viljið þið að ég gefi ykkur lausan?“
Þeir sögðu: „Barabbas.“
Pílatus spyr: „Hvað á ég þá að gera við Jesú sem kallast Kristur?“
Þeir segja allir: „Krossfestu hann.“
Pílatus spurði: „Hvað illt hefur hann þá gert?“
En þeir æptu því meir: „Krossfestu hann!“
Nú sér Pílatus að hann fær ekki að gert en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: „Sýkn er ég af blóði þessa [réttláta] manns! Svarið þið sjálf fyrir!“
Og allur lýðurinn sagði: „Komi blóð hans yfir okkur og yfir börn okkar!“
Þá gaf hann þeim Barabbas lausan en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.