Stíg upp á hátt fjall, Síon, fagnaðarboði.
Hef upp raust þína kröftuglega, Jerúsalem, fagnaðarboði.
Hef upp raustina og óttast eigi,
seg borgunum í Júda:
Sjá, Guð yðar kemur í mætti
og ríkir með máttugum armi.
Sjá, sigurlaun hans eru með honum
og fengur hans fer fyrir honum.
Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga,
taka unglömbin í faðm sér
og bera þau í fangi sínu
en leiða mæðurnar.

Hver mældi vötnin í lófa sínum
og afmarkaði himininn með spönn sinni?
Hver mældi duft jarðar í mælikeri,
vó fjöllin á reislu
og hæðirnar á vogarskálum?
Hver getur stýrt anda Drottins,
hver ráðlagt honum og kennt?
Hvern spurði hann ráða sér til skilningsauka,
hver fræddi hann um leið réttvísinnar,
veitti honum þekkingu,
vísaði honum veginn til skilnings?
Þjóðirnar eru sem dropi úr fötu
og eru metnar sem ryk á vogarskálum,
hann vegur eyjarnar sem sandkorn væru.
Líbanonsskógur nægir ekki til eldiviðar
og dýrin í honum ekki til brennifórnar.
Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum,
hann metur þær einskis, minna en ekkert.