Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: „Gef þú Guði dýrðina. Við vitum að þessi maður er syndari.“
Hann svaraði: „Ekki veit ég hvort hann er syndari. En eitt veit ég að ég, sem var blindur, er nú sjáandi.“
Þá sögðu þeir við hann: „Hvað gerði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?“
Hann svaraði þeim: „Ég er búinn að segja ykkur það og þið hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þið heyra það aftur? Viljið þið líka verða lærisveinar hans?“
Þeir atyrtu hann og sögðu: „Þú ert lærisveinn hans, við erum lærisveinar Móse. Við vitum að Guð talaði við Móse en við vitum ekki hvaðan þessi maður er.“
Maðurinn svaraði þeim: „Þetta er furðulegt, að þið vitið ekki hvaðan hann er og þó opnaði hann augu mín. Við vitum að Guð heyrir ekki bænir syndara. Hann bænheyrir hvern þann sem er guðrækinn og fer að Guðs vilja.