Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast og setið í sekk og ösku. En Týrus og Sídon mun bærilegra í dóminum en ykkur. Og þú, Kapernaúm! Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða.
Sá sem á yður hlýðir hlýðir á mig og sá sem hafnar yður hafnar mér. En sá sem hafnar mér hafnar þeim er sendi mig.“

Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“

Á sömu stundu fylltist Jesús af fagnandi gleði heilags anda og sagði: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn veit hver sonurinn er nema faðirinn né hver faðirinn er nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann.“

Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“