Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn. Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra þegar ég tók í hönd þeim og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir rufu þann sáttmála við mig þótt ég væri herra þeirra, segir Drottinn. Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.

Svo segir Drottinn,
sem setti sólina til að lýsa um daga
og tungl og stjörnur til að lýsa um nætur,
sem æsir hafið svo að öldurnar gnýja,
Drottinn hersveitanna er nafn hans:
Raskist þessi skipan fyrir augliti mínu
hætta niðjar Ísraels að vera þjóð fyrir augliti mínu
fyrir fullt og allt, segir Drottinn.
Svo segir Drottinn:
Ef himinninn yfir oss yrði mældur
og undirstöður jarðar hið neðra rannsakaðar
mundi ég hafna öllum niðjum Ísraels
vegna alls þess sem þeir hafa gert,
segir Drottinn.

Þeir dagar koma, segir Drottinn, að borg Drottins verður endurreist frá turni Hananels að Hornhliðinu. Mælisnúran mun liggja beint að Garebhæð og sveigja síðan til Góa. Allur dalurinn með líkunum og fórnaröskunni og hlíðarnar að Kídronlæk austur að horninu við Hrossahliðið verða helgaðar Drottni. Ekkert verður nokkru sinni framar upprætt þar eða rifið niður.