Ég heyrði kvein Efraíms:
„Þú hirtir mig og ég tók hirtingunni
líkt og óvaninn kálfur.
Lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við
því að þú ert Drottinn, Guð minn.
Þegar ég sneri frá þér iðraðist ég.
Eftir að ég öðlaðist skilning barði ég mér á brjóst,
sneyptur og fullur blygðunar,
því að á mér hvíldi skömm æsku minnar.“
Er Efraím mér svo kær sonur
eða slíkt eftirlætisbarn?
Í hvert skipti sem ég ávíta hann
hlýt ég að minnast hans.
Þess vegna hef ég meðaumkun með honum,
hlýt að sýna honum miskunn,
segir Drottinn.

Reistu vörður, komdu fyrir vegvísum,
hafðu gætur á veginum,
leiðinni sem þú gekkst.
Snúðu aftur, mærin Ísrael,
snúðu aftur til borga þinna.
Hve lengi ætlarðu að eigra um stefnulaust,
fráhverfa dóttir?
Því að Drottinn skapar nýtt í landinu:
konan mun vernda karlinn.

Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þegar ég hef snúið við hag íbúanna í Júda verða þessi orð sögð að nýju í landinu og borgum þess: „Drottinn blessi þig, bústaður réttlætisins, heilaga fjall.“ Akuryrkjumenn og hirðingjar munu búa saman í landinu, í Júda og borgum þess. Ég svala þorsta hins örmagna og metta hinn magnþrota.
Við þetta vaknaði ég og leit í kringum mig. Ég hafði sofið vært.
Þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun fjölga bæði mönnum og dýrum í Ísrael og Júda. Ég vakti yfir þeim til að uppræta, rífa, brjóta, eyða og valda skaða; eins mun ég vaka yfir þeim til að byggja og gróðursetja, segir Drottinn.

Ábyrgð á eigin gerðum
Á þeim dögum verður ekki lengur sagt: „Feðurnir átu súr vínber og tennur barna þeirra urðu sljóar.“ Nei, sérhver mun deyja vegna eigin sektar; hver sá sem etur súr vínber fær sljóar tennur.