Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur
og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.
Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
Þjóðir munu stefna á ljós þitt
og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér.
Hef upp augu þín og litast um,
þeir safnast allir saman og koma til þín,
synir þínir koma langt að
og dætur þínar verða bornar á örmum.
Við þá sýn muntu gleðjast,
hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði
því að til þín hverfur auður hafsins
og auðæfi þjóða berast þér.
Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt,
drómedarar frá Midían og Efa
og allir, sem koma frá Saba,
færa þér gull og reykelsi
og flytja Drottni lof.