Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“
En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“
Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“
En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“
Hermenn spurðu hann einnig: „En hvað eigum við að gera?“
Hann sagði við þá: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“
Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
Með mörgu öðru hvatti hann fólk og flutti því fagnaðarboðin.
Jóhannes vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa sem hann hafði gert. Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.